Ýmis skáldskapur, sem allt í einu poppar upp
Janúar
Horfnir tímar
Við sjóndeildarhringinn sólin hnígur til viðar
ég syrgi horfna tíma og liðin ár
Í hjarta mínu óska ég að þú finnir frið
fáir lausn,
sjáir von
Lífið geymir lausnir ef þú þorir
að leita
Sár
Sorgin nístir inn að hjartarótum
nagandi sekt í bland við söknuð
Fyrir hugskotssjónum svífur mynd
magnast en líður að endingu hjá
eftir situr sár
hjartasár
Staka
Vonin er talin til vopna
vörn geng lífsins sorta
Kærleikur hjörtu ku opna
kjarkur hugsun mun erta
febrúar
Hugsanir
Í mínum huga blunda hugsanir
þær taka á sig myndir
en hverfa jafn óðum út í loftið
þær leika sér að mér
snúa öllu á hvolf
hæðast að mér og spotta mig
láta eins og þær séu vinur minn
en skilja mig eftir
sem flak
Staka
Meðan rökkrið leggst yfir láð
ligg ég í húminu hugsandi
hlusta eftir hvort finni ég ráð
engist sálin leitandi
Þú
Þú ert eins og hafið, lokkandi, seiðandi
bíður mér mjúkan arminn
umvefur mig hlýju, strýkur mér blíðlega
hvíslar ljúflega að mér
lofar mér öryggi
svæfir mig með ljúfum söng
hvíslar
strýkur
Þú ert eins og stormur, æðandi, hamslaus
sýnir mér miskunarlausa hörku
kaldir vindar hvelfast um mig
beljandi regnið hamast við vanga minn
feykir mér til og frá
andvaka ligg í öskrandi roki
ógnar
hótar
Hnífur
Vonin er mitt sterkasta vopn
beitt úr riðfríu stáli.
Hún verður fyrir skakkaföllum,
lætur á sjá.
Með tímanum beyglast blaðið
og skaptið missir mýkt
en bítur ávallt
þótt liggi lengi
ofan í skúffu
Fjaran
Við lygnan sjó breiðist birtan út sjóndeildarhringinn
Yfir haffletinum svífa fuglar, frjálsir
Við sjávarmálið velta steinarnir til og frá, nuddast
Í fjöruborðinu reynir stráið að tóra, óbrotið
Í fjörunni myndast fótspor, tímabundið
Þögnin, kliðurinn, aldan, fuglakvakið og vindurinn
Saman og í sitthvoru lagi mynda þau veröld,
veröld sem var, er og verður
tímabundin
mars
Skálda sker
Hugsandi gengur með höfuð mót jörðu
mælir ei orð meðan hugurinn svífur
Án orða mun verkið svo mótast úr örðu
verkefnið hugurinn fær, mótar og klífur
Vor
Ég geng um göturnar síðla nætur
glaðlega í lund snemma að vori
Sönglandi lagstúf sem óðara lætur
ljúfa minningu birtast að vörmu spori
Hrafninn
Á þöndum vængjum svífur hann létt um loftin bláu
leikandi hækkar flugið og steypir sér niður
Af fimi hann klífur óbeislað aflið að tindunum háu
hreikir sér gargandi, veltir sér og uppsker kliður