Þorrablóts þrenning

Á einni viku er ég búin að mæta á þrjú þorrablót, hvert öðru ólíkara :)

Fyrsta blótið var í sveitinni, Þorrablót Holta- og Landmanna að Brúarlundi.  Sveita-blót eins og þau eiga að vera, heimatilbúin hljómsveit tveggja Landmanna (já ég veit að hljómsveit er 5 eða fleiri, en þeir voru örugglega ígildi hljómsveitar).  Alveg séstök upplifun að skemmta sér innan um sveitunga mína :) (já ég er víst fædd á mölinni, en samt!).
Næsta blót var svo haldið af Starfsmannafélagi Samskipa, Samstarf, og það var ótrúlega skemmtilegt líka.  Hagdeildin sá um skemmtiatriðin og stóð sig með príði, samt gott að þau voru eftir matinn (þeir sem voru viðstaddir átta sig á hvers vegna :P ), flautuleikurinn var frábær.  Það sem gerir það svo skemmtilegt að skemmta sér með starfsmönnum Samskipa, er hvað allir þekkjast vel og það er einstaklega góður mórall, þó fyrirtækið sé stórt þá er mórallinn samt eins og hjá 30 manna fyrirtæki, sem er frábært.  Minnir mig soldið á Frumherja þegar ég var þar.

Síðasta blótið var svo Þorrablót Vatnsendabúa, þrátt fyrir að ég sé ekki þaðan þá eru bara svo margir úr kórnum sem búa á Vatnsenda og svo er þetta blót eins líkt sveita-blótum og hugsast getur :)

það sem gerir þessi blót ólík hvert öðru er ekki maturinn, hann er oftast nær eins, allt þetta hefðbundna á borðunum, síld, rúgbrauð,flatkökur, súrt slátur, súr hvalur, hákarl, hangikjöt, kartöflur í uppstúf, saltkjöt og svona ýmislegt smáræði eftir því hver kokkurinn er.  Skemmtiatriðin eru svo yfirleitt heimatilbúin og fer svoldið eftir andanum sem svífur yfir blótinu hverju sinni.  Ég hef ofsalega gaman af skemmtiatriðunum í sveitinni, þar eru fluttir annálar þar sem flestir íbúar sveitarinnar fá brandara á sinn kostnað, allt í góðum anda að sjálfsögðu.

Það sem gerir þessi blót ólík hverju öðru er það sem tekur við.  Dansleikurinn! Í sveitinni er byrjað á sjómannavölsunum, svo er farið í hringdans (stundum tvisvar, þrisvar á kvöldi) og að lokum eru svo leikin lög þar sem danskunnátta sveitunga fær að blómstra.  Í bænum er meira um rokk og ról.  Nýjustu slagarar eru látnir fjúka, Bítlarnir eru náttúrurlega klassískir en mikill meirihluti þeirra sem mæta kunna ekki dans (þá á ég við t.d. vals, rúmbu eða annað slíkt).  Þeir sem mæta frá fyrirtækjum eru oft að hita sig upp fyrir meira djamm, þannig að ef það á að halda í þann hóp má ekki heyrast mikið af tónlist sem er ekki mainstream.  Gömlu dansarnir verða algjör killer og fólk hleypur út í förmum.

Vatnsendablótið er eiginlega bland af þessu tvennu.  Þarna mæta “gömlu” íbúarnir í bland við nýrri bylgju, en þó er andinn sá að vera á “sveita”-blóti. Ég skemmti mér alla vega konunglega á þeim öllum og hlakka til blótann 2011.

Unglingamál

Ég fékk póst um daginn með texta sem á að sýna hvernig unglingarnir í dag tala.  Þar sem mér fannst þessi texti frekar fyndin þá ákvað ég að senda hann áfram.  Hann er svona:

jaá það átti ekkert að busa mig en það var bara hennt mér í ruslapoka og byrjað að öskra á mig því vinur minn var böðull. það voru ekki næstum allir nýnemar busaðir en snorri þurfti náttúrulega að vera aðeins og flottur og fór að hlægja þegar það var tekið mig en þá var náttulega líka tekið hann :D

Viðbrögðin voru í flestum tilfellum hlátur og góðlátlegt grín.  Sirrý systir var reyndar að spá hvort viðkomandi hefði komist inn í framhaldsskóla með þennan orðaforða, get tekið undir það :)

Það voru samt viðbrögð dóttur minnar sem voru best, hún spurði:

Hvað er að þessum texta?

Sumar

Það er næstum mánuður liðinn af sumarfríinu hjá krökkunum og rétt um þrjár vikur í mitt sumarfrí :)

Mikið rosalega hlakka ég til, vona bara að mér takist að nýta vel þessa sumarleifisdaga svo ég sitji ekki í haust og velti því fyrir mér hvað ég hefði nú getað gert og hvað ég ætla að gera næsta sumar.

Ég hef lengi stefnt á að vera fyrir norðan um sumarsólstöður, en ekkert orðið af því ennþá.  Næst á listanum er svo að flakka um á bílnum, með skuldahala og nesti í tösku, keyra um suðurlandið t.d. og njóta útiverunnar.  Það hefur nú ekki gengið nógu vel heldur. Bestu fríin mín eru þegar ég fer utanlands.  Þá neyðist ég til að slaka á, njóta þess að vera bara þar sem ég er hverju sinni og fer svo heim með fullt af myndum og minningum í farteskinu.  Spurning hvort það sé ekki hægt að yfirfæra það upp á innanlandsfrí?

Hræðsla

Hafið þið einhverntímann velt því fyrir ykkur hvað hræðsla er öflug?  Það að vera hræddur getur neytt mann til að gera ótrúlegustu hluti, en einnig haldið manni frá því að framkvæma.  Ef hræðsla stýrir gjörðum manns er allt eins líklegt að eðlilegasti hluti verði gerður torkynnilegur og það sem myndi teljast eðlileg viðbrögð verða ofsafengin.

Hræðsla getur verið sterkur bandamaður, hún heldur manni frá því að framkvæma hluti sem eru hættulegir, en hún er einnig óvinur þegar hún aftrar manni frá því að taka af skarið, yfirvinna hindranir.  Hvert tilfelli þar sem hræðsla er við völd veldur auknum kvíða, óróa og vanlíðan sem skilar sér í verri heilsu, hugarástand raskast og hvert skref virðist verða blýþungt og hvert orð getur valdið óþarfa kvöl.

Ákvarðanir sem stýrast af hræðslu verða marklausar, þær valda oft meiri angist frekar en að leysa vandamál sem koma upp, enda bregst líkaminn við hræðslu með flótta, reiði, ofsa og árásargirni í stað rökhugsunar. Það að hræðast það sem er framundan er kannski hræðslan við að sleppa tökunum, sætta sig við að upp koma tilfelli sem ekki er hægt að undirbúa sig undir, hvert tilfelli sem veldur hræðslu við hið óþekkta.

Mótvægi við reiði getur hugsanlega verið gleði, sáttfýsi, göfuglyndi og gjafmildi.  Mótvægi við hræðslu?  Sætta sig við að stundum gerast hlutir sem maður getur ekki undirbúið eða brugðist við, án þess að nokkur hafi beinlínis þröngvað því upp á mann.

Argaþras 2

Vá, nú talar VG fyrir því að stjórna niðurskurðinum þannig að sumir landshlutar taki á sig meiri birgðar, smjaðrar fyrir vestfirðingunum, ætli það sé til innistæða fyrir loforðunum?

Uss… Framsókn í vondum málum, eiginlega bara hortugur karlinn, hélt að hann gæti rekið spurninguna aftur ofan í konuna með fullyrðinum um að hún væri ekki með starðreyndirnar á hreinu, en gamla svaraði fyrir sig.

Argaþras

Er að horfa á frambjóðendur á vestfjörðum á RÚV.  Úff púff… (bíííííííp, bíííííííp).

X ið á rúv

ja hérna… gaman að sjá tvær kynslóðir mætast í X.inu á rúv.  Annars vegar eru “gömlu” vélarnar að tala í gömlu frösunum og svo hinsvegar nýrri aðilar, aðallega þó Sigmundur, sem eru komnir í nýjar lausnir.

Addi Kidda Gau er fastur í sjávarútveginum, svo sem ekkert að því, Jóhanna og Steingrímur J. í alþýðu manna, heldur ekkert að því, og Bjarni í auðvaldinu, þarf líka að hugsa um það. Jóli (man ekki hvað hann heitir í augnablikinu) er náttúrulega úti á þekju líkt og venjulega svo Sigmundur og Þór eru soldið eins og ferskur andvari þarna, ekki það að ég viti hvernig þeir verða/yrðu á þingi.

Bjarni og Sigmundur ræða stóriðju og samdrátt í ríkisútgjöldum.
Sama röflið annars, álver (af eða á), verðtrygging (af eða ekki), afslátt af lánum (af eða ekki), peningar, skattar og fleira.  Ætli Steingrímur sé fyrirmyndin af Ragnari Reykás? Álverð, ekki gleyma því!  Ferðaþjónusta, þjónusta, hvalveiðar, stýrivaxtalækkun, bankar, endurfjármögnun, stöðuleiki krónunnar, evran og Evrópusambandið af eða á, kom frá Steingrími.

Stórtækar aðgerðir, viðhaldsframkvæmdir, fjölga störfum í sprotafyrirtækjum, atvinnuleysi og fleira kom frá Jóhönnu.

Afla orku á vestfjörðum, auka fiskveiðar, aðallega á þorski, útflutningstekjur og margfeldisáhrif af því og fleira tengt því kom frá Guðjóni (að vanda).  Áttum okkur á því að það þarf að ná niður kostnaði, heimurinn kallar á lægra vöruverð (er ekki krónan nánast verðlaus?).

Hugmyndir um suðurnesinn, friðargæslu Sameinuðuþjóðanna hefði getað komið hingað, lýðræði handa fólkinu, fá fyrirtæki hingað heim.  Merkilegt hvað Jóli getur misst sig yfir jafn litlu!
Ætli það sé svona sér Sjálfstæðíska að endurtaka punch line.ið?

Gjaldmiðillinn, aðal málið.

Þór vill losna við hana strax, taka upp annan gjaldmiðil nú þegar.  Sigmundur vill fara í aðildarviðræður, með skilyrðum s.s. fullveldið, landbúnaðinn og fleira, skipta út krónu.

Björn talar um að það sé ekki tímabært að ræða um upptöku á öðrum gjaldmiðli, bendir í Íra sem dæmi um þjóð sem er í vanda beinlínis út af Evrópusambandinu. Engin lausn samt á skammtímavanda.

Guðjón vill ekki fara inn miðað við aðstæður, sérstaklega út frá skilyrðum varðandi landbúnað og sjávarútveginum.

Steingrímur vill halda í krónuna, engin kemur og tekur til fyrir okkur, við verðum að gera það sjálf (talar fyrir einangrunnarstefnu?), innleiða stöðuleikann og þjóni ekki hagsmunum þjóðarinnar.

Jóhann vill sækja um aðild strax, bæði til að fá að vita hvaða samning við fáum, hún er einnig sannfærð um að það hagnist þjóðinni best.  Nú varð allt vitlaust í þættinum!

Ástþór (jóli) talar í myndlíkingum, líkir krónunni við einkunnarbók, tala við Evrópusambandið og þjóðin ákveði það sjálf.

Athugasemdir við athugasemdir

Ég er búin að vera að lesa blogg í margar vikur, jafnvel mánuði, kíkt á hina og þessa ræða það sem kemur upp dags daglega og spá í hvað fólk er að hugsa.  Oft á tíðum er ég á Eyjunni og þá oftast nær að lesa bloggið hjá Agli.  Oft á tíðum hefur mér blöskrað skrif fólks í athugasemdum við hinar ýmsu færslur.  Um það bil helmingur athugasemda eru út af texta sem er skrifaður og svo spinnast ýmsar umræður í kringum þær, fólk fer svo smám saman að tala um ástandið í landinu og eftir smá tíma er eins og fólk missi algjörlega stjórn á skapinu, sérstaklega eftir ca 10 á kvöldin.

Að gefnu tilefni langar mig að deila með ykkur eftirfaranid, en ég las það einhvern tímann að þeir sem blóta mikið eru þeir sem eru fátækir á íslenska tungu.  Hef haft það í huga og reyni að orða hlutina án þess að blóta eða uppnefna. Það mættu fleiri taka það sér til fyrirmyndar og hugsanlega yrðu umræður málefnalegri fyrir vikið.

Uppnefni á fólki, félögum og fyrirtækjum eru ótrúlega víða.  Einn viðmælanda er til dæmis svo uppsigað við Samfylkingu að hann kallar flokkinn Samspillingarflokk, en líklegast vegna þekkingarskorts. Ekki veit ég hvað sumu fólki gengur til.  Ég lærði þann sið af ömmum mínum og öfum, að sýna öðrum sömu virðingu og ég krefst af þeim, svo mér finnast svona ummæli dæma sig sjálf.

Ég hef alla vega oft gefist upp eftir ca 10 athugasemdir við hverja frétt og stundum verðum mér hreinlega óglatt af restinni.

Stjórnarskrá og stjórnlagaþing

Í tilefni fréttar á visi.is í dag.
Hérna uuummm… er ekki máið einmitt að stjórnarskrá sé óháð alþingi?  Alþingi á að vinna til samræmis við stjórnarskrá, stjórnarskrá er ekki og á ekki að vera háð alþingi og þeim sem sitja þar.

“Sjálfstæðismenn eru hvað óánægðastir með þennan hluta frumvarpsins. Þeir segja stjórnlagaþingið verða allt of dýrt og með því sé verið að taka völd af Alþingi.”

Er fólk ekki aðeins að misskilja málið???

Þorrablótsmaraþon

Nú er þorrablóti nr. 2 lokið hjá mér. Fyrst var það í Fáks heimilinu í Víðidal þar sem Vatnsendabúar blótuðu, sungu, dönsuðu og slógust, ja, get svo sem ekki sagt að það hafi verið slegist, ég sá reyndar einn gest fleygja öðrum yfir í dilk, en hugsanlega var hann bara í réttarfíling.

Blót númer tvö var síðan í gær, þorrablót starfsmanna Samskipa í Fram heimilinu. Ég skemmti mér konunglega, get ekki svarað fyrir aðra (ekki einu sinni Björn ;) ). Á báðum stöðum voru heimatilbúin skemmtiatriði, sem mér finnst eftirá að hyggja mun skemmtilegra, þar sem það segir miklu meira um mannskapinn sem ég vinn með, heldur en aðkeypt atriði.

En sumsé, ég held að þessum blótum sé lokið í bili.