Fjárstyrkir

Nú er mikið rætt um mútur og þá aðallega í tengslum við Guðlaug Þór.  Það verður fróðlegt að sjá hvernig það mál þróast, en ég ætla ekki að tala mig út um það mál heldur um mína skilgreiningu á styrkjum.

Í mínum huga eru mútur fé sem greitt er til aðila (eins eða fleiri), fé sem aðeins þeim aðila/aðilum stendur til boða og er innt af hendi gegn greiða, hvort sem það felur í sér verknað eða verkleysi.

Til samanburðar má horfa á annað fjárstreymi sem eru styrkir.  Styrkir eru greiddir til aðila sem sækja um styrk.  Hvaða aðili sem er getur sótt um þann styrk, fólk í stjórnmálum, í bönkum, háskólum, rekstraraðilar, nemendur, atvinnulausir, heimavinnandi eða hvar svo sem það er.  Þessir styrkir eru yfirleitt skilgreindir og hafa ákveðin tilgang t.d. fyrir nám, vísindastarf eða hvað annað sem hægt er að styrkja.

Ef fjármagn er í formi styrkja er hægt að sækja um féð, enda ætli einstaklingur/fyrirtæki að nýta það sér eða öðrum til framdráttar og það er algjörlega uppi á borðinu.  Ef stjórnmálamaður sækir um styrk til framboðs, er nokkuð augljóst að öðrum stjórnmálamönnum stendur það einnig til boða, hvar svo sem þeir liggja í flokkum. Ég sé fyrir mér einhverja fasta summu, 100 - 200 þúsund (hvað veit ég?) sem rennur til hvers sem er.  Það er heldur ekki óeðlilegt að aðili sem veitir styrkinn setji kvaðir á þá sem sækja sér styrk, t.d. að standa fyrir eitthvað málefni, vinna að framgangi einhvers?  Ekki að mér finnist það sérstaklega aðlaðandi, þ.e. þegar kemur að stjórnmálamönnum og fjármálafyrirtækjum.

Það vita allir fyrir hvað rannsóknarstyrkir standa, þetta form er meira aðlaðandi, eins námsstyrkir sem mér finnst persónulega að séu ekki nógu margir. Mín persónulega skoðun á fjárútlátum til stjórnmálamanna á sér tvær hliðar, annars vegar er eðlilegt að einstaklingur geti sótt sér styrki til að komast að með sín málefni, t.d. með auglýsingum í blöðum, hins vegar, í ljósi síðustu atburða, getur myndast óeðlilegt samband milli þessara aðila.

Það sem mér finnst óeðlilegt er þegar örfáum einstaklingum stendur þetta til boða, þegar þeir fá greiðslu sem er það há að hún hefur áhrif á lifsviðurværi og þar með myndast hagsmunatengsl milli þess sem veitir féð og þess sem þiggur það.  Þarna er hægt að tala um mútufé, en þá er ég ekki að segja að þiggjandinn geri það meðvitað eða með þeim ásetningi að gjalda greiðann með óeðlilegum hætti, hættan er hins vegar fyrir hendi.

Hér á Íslandi er áralöng hefð fyrir frændsemi, þ.e. sá sem er vel tengdur vegna skyldleika eða vináttu er líklegri en aðrir til að hljóta stöður.  Við höfum oftast litið pent framhjá þessu, enda baráttan oft verið ansi hörð. Hver kannast ekki við að vera sendur til einhvers aðila vegna tengsla, t.d. til að fá vinnu, “ah… hann Siggi frændi þinn er að vinna þarna og hann skuldar mér nú greiða!”.  Unglingar komast að í fyrirtækjum vegna tengsla foreldra eða annarra ættingja og vina, við nýtum okkur tengsl alla daga og finnst það ekki tiltökumál.  Kannski erum við svo vön þessu að okkur finnst ekki tiltökumál að peningar komi inn í spilið.

Ég er ekki að mæla með því að gildi frændsemi og vináttu verði slitinn, við þurfum öll á tengslum að halda, en spurningin er hvenær er þetta eðlilegt og hvenær er hægt að tala um óeðlileg tengsl. Kannski liggur munurinn í hugarfari þess sem veitir greiðann eða styrkinn og þess sem þiggur, en hvernig geta aðrir þá séð muninn?  Er eitthvað sem segir okkur hvort um sé að ræða eðlileg eða óeðlileg tengs?

Jú við getum gengið út frá því að þegar báðir aðilar eru tilbúnir til að birta upplýsingar um gjörninginn að þá sé um eðlilegt ferli að ræða, sá sem er ekki tilbúin til að veita upplýsingar um tengslin, hann hefur eitthvað að fela og gerir sér grein fyrir því að verkin eru ekki hafin yfir grun.  þegar stjórnmálamaður eða annar einstaklingur sem vinnur í þágu almennings vill ekki eða telur sig ekki mega eða geta upplýst um styrki, þá á hann ekki að þiggja þá í upphafi.