“Á svona tímamótum er gott að líta um öxl (búin að því)”… snilldar skets úr einhverjum gamanþættinum man ekki hvaða. En þetta er samt pínulítið staðan sem ég er í núna. Þessir páskar voru einstaklega ljúfir, ég held ég hafi ekki náð svona góðri hvíld síðan ja! hm… já síðan hvenær? Oftast er staðan sú að eftir góða hvíld tekur við tiltekt, sópa og skúra og koma öllu draslinu aftur i bílinn og keyra heim. Nema núna er ég heima! Engin brjálæðisleg tiltekt, það þarf ekki að teppa þvottavélina næstu vikuna við að þrífa fötin eftir ferðalagið eða eitthvað í þeim dúr. Mesta umstangið er að koma öllu í uppþvottavélina og raða upp í skáp. Pís of keik!
Þetta er ánægjuleg tilbreyting frá öðrum fríum, hversu góð sem þau voru þá var alltaf svo yndislegt að koma heim og slappa af eftir fríið! Hversu öfugsnúið er það? Ég er eiginlega komin á þá skoðun að eina almennilega fríið sé að slaka á heima! Tilbreytingin fells svo í því að skreppa í dagsstund eitthvað út fyrir bæjarmörkin. Ekki það að það sé ekki gaman að fara í ferðalag, en mín upplifun af þeim er yfirleitt stress, ótrúlegir skipulagshæfileikar (smá skortur þar) og ótakmarkað fé (þarna koma skipulagshæfileikar að góðum notum). Ég hef ekki farið í frí öðruvísi en velta fyrir mér hvar ég eigi að gista fyirr hverja nótt (nema í sumarbústað), hvort ég sé með nógu mikinn mat eða jafnvel of mikið af mat, hvort ég sé með pening fyrir bensíni og hvort ég hafi þá efni á því að kaupa mat eða jafnvel nóg fyrir gistingu. Of mikið stress!!!
Best væri kannski að hafa afdrep í sumarbústað, en þar sem ég á engan slíkann þá er þetta spurning um að redda sér gistingu í félagsbústað eða setjast upp á ættingja (takk pabbi og Jóna! ). Bestu frí sem ég hef farið í hingað til, eru farin út fyrir landsteinanna, af tveimur ástæðum þá helst. Í fyrsta lagi er yndislegt að fara í annað umhverfi, það er eiginlega bráðnauðsynlegt, bæði tilbreytinginn og svo hafa allir gott af því að sjá að heimurinn er stærri en höfuðborgarsvæðið og Akureyri. Í öðru lagi er það hæfileg fjarlægð frá vinnu, þar sem ég get þá sett mér þær skorður að vera ekki að tékka á einhverju sem er alveg bráðnauðsynlegt að tékka á! Hrikalegur ósiður sem ég hef komið mér upp.
Það sem mér hefur alltaf fundist skemmtilegast við að kíkja út fyrir landsteinanna er áhrifin sem þetta hefur á krakkana mína. Það er ótrúlegt hvað þau taka stórt þroska-skref eftir svona ferðir. Allt í einu er heimurinn svo miklu, miklu stærri og það er til fólk sem er ekki eins og við, en samt ekkert öðruvísi! Þau upplifa heiminn sem betri heild. Vonandi verða þau mun opnari fyrir öðrum hlutum en ég var á þeirra aldri.
En það var sumsé ljúft að njóta þess að vera í páskafríi og ég hlakka til sumarsins, þó það leiki hálfgerðir haustvindar um okkur núna.