Myndir

Ég er í endurhæfingu þessa dagana, er að teikna upp í skissubók ýmislegt sem ber fyrir augun.  Í kvöld var ég til dæmis að teikna upp fólk úr sjónvarpinu, fréttaþulu, handboltakappa og ýmsa aðra sem ég fann þörf fyrir að smella á blað.  Þetta er búið að ganga ágætlega, komin með nokkrar skissur sem ég get þá vonandi unnið lengra með tíð og tíma.

Það sem er kannski óvenjulegt við þetta allt saman er að ég hef sjaldan, eða aldrei, talið mig góða í að teikna fólk, eiginlega forðast það eins og heitan eldinn.  Það er því soldið gaman að sjá að fólk er ótrúlega einfalt þegar maður nær tökum á hlutföllum.

Annars er ég ekki mikið að flíka þessum myndum mínum, það kemur kannski að því að ég skelli þeim fram, og verð líklegast óþolandi ættinginn sem gefur bara myndir í afmælisgjafir í framtíðinni :-þ

Mitt vandamál hefur iðulega tengst ímyndunaraflinu, ég er búin að sjá út einhverja mynd og svo þegar mér tekst ekki að koma henni á blað, eins og ég sá það í upphafi, hendi ég því frá mér og fussa yfir því að mér skildi hafa dottið í hug að ég gæti teiknað þetta!…  Alltaf að keppa við Kjarval.  Það er líklegast ágætis aðferð að byrja á því að viðurkenna að fyrst þurfi að læra smáa hluti, t.d. andlit, hendur, fætur, hreifingar og þess háttar, áður en ég færi mig út í stóru verkin.  Annars hef ég alltaf haft ánægju af því að teikna landslag, það er kannski af því að landslag fyrirgefur þótt þúfa, ás, vatn, lækur eða fjall, sé ekki í sömu hlutföllum á mynd, það er verra ef nef, auga eða fótur skagar út úr teikningunni og manneskjan virðist útvaxin á ótrúlegustu stöðum.  Þannig sé ég það alla vega.

Svo gæti einnig verið komin tími til að viðurkenna það fyrir sjálfum sér að það sem mér finnst vera ófullkomið og asnalegt, er það kannski ekki.  Hrós sem ég fékk sem krakki fóru beint í ruslið af því að ég trúði því ekki sjálf að myndirnar væru raunverulega góðar, yfirleitt gat ég sjálf rakkað það allt niður og þar með skipti engu máli hvað aðrir sögðu.  Myndir hafa oft og iðulega verið kyrfilega læstar ofan í skúffu þar sem aðeins ég get nálgast þær, ég stefni á að breyta því.