Í fréttum í kvöld (sjö fréttir þann 21.febrúar 2011 nánar tiltekið) var ein frétt umfram aðrar sem fékk mig aðeins til að hugsa um ábyrgðir. Skipstjóri á skipi Eimskipafélagsins, sem er sumsé strandað í Oslóarfirði, hefur, samkvæmt því sem hefur komið fram í fréttum, viðurkennt að hann hafi gert mistök við útsiglinguna. Það sem stakk mig var ekki það að hann skildi hafa gert mistök, og enn síður að hann hafi viðurkennt það, heldur hitt að það sé gagnrýnt að það hafi komið fram. Ég hélt að það væri deginum ljósara að mannleg mistök hafi valdið þessu óhappi og umhverfis slysi, þó að vissulega sé freistandi að kenna t.d. tölvum, siglingatækjum eða öðrum ópersónulegum hlutum um.
Fyrir mér var þetta yndisleg tilbreyting, þ.e. að einstaklingur komi fram og viðurkenni blákallt mistök. það er eitthvað svo yndislega framandi við það. Það virðist reyndar vera komið í tísku á öðrum vettvangi, t.d. á Alþingi, þar sem þingmenn eru allt í einu tilbúnir til að viðurkenna mistök og fái hvítþvott í staðinn. En þetta var ekki svoleiðis. Þetta hljómaði svoldið eins og það væri viðurkennt af einlægni, ekki af eiginhagsmunum.
Þessi hugsun snýr líka að sjálfri mér, er ég tilbúin til að taka ábyrgð á því sem ég geri? Mínum mistökum? Það er víst til lítils að gagnrýna aðra fyrir það sem ég geri sjálf, ekki nema það sé þá gert í þeim tilgangi að læra af því sjálf
En hvað er þá ábyrgð og hvenær ber ég ábyrgð? Ég ber náttúrulega ábyrgð á því sem ég skrifa hérna, hvernig ég bregst við eða bregst ekki við. Hvað ég segi, segi ekki, geri eða geri ekki. Í grunninn allt sem snýr að mér.