Útilokun

Kláraði sögu dr. Gunnars Th. í dag.  Þetta var ákaflega fróðlegur lestur og upplýsandi í alla staði. Það sem situr í mér eftir lesturinn er fyrst og fremst útilokunin sem hann varð fyrir, fyrst og síðast vegna þess að hann fylgdi sinni sannfæringu.  Lesturinn vakti hjá mér þörf til að vita meira, lesa meira um hvað var í gangi á þessum tíma þegar afi og amma tóku við keflinu og byggðu upp landið eftir áratuga, ef ekki árhundruða fátækt almennings.  Hversu stórbrotinn þessi vegur var, að rísa úr moldinni og til nútímans, á aðeins 50 til 60 árum.

Bakgrunnur Gunnars er vel upp byggður, frá fyrstu blaðsíðu varð ég svo forvitin að ég gat ekki annað en haldið áfram, þótt mér finnist rúmar 500 blaðsíður ansi yfirþyrmandi.  Eins lifði ég mig inn í atburði sem mótuðu hann, svo mikið að oft fannst mér eins og ég hlyti að hafa verið áhorfandi sjálf.  Mótunarárin voru eins mikilvægur hluti af sögunni, án þess hefði ég ekki getað sett mig inn í þá atburði sem fylgdu, að fá tilfinningu fyrir manninum í upphafi útskýrir allt sem kemur á eftir.

Eftir lesturinn er ég hugsandi.  Hvernig er hægt að útiloka eins merkilegan mann og Gunnar frá innsta hring flokksins, maðurinn sem átti þátt í að byggja hann upp úr rústunum.  Ótrúlegt hvað valdabaráttan gat eyðilagt marga einstaklinga, sem í sjálfu sér voru ekki slæmir menn.  Barátta um völd er eins og æxli í flokknum, plottið, útsjónasemin og heiðurinn.  Í gegnum allan lesturinn hafði ég aldrei nema samúð með Gunnari.

Mér fannst lítið til þess koma, sem var mest dregið fram úr bókinni af öðrum, hvernig fyrirgreiðslan gekk fyrir sig.  Ekki að ég sé að mæla henni bót, en það er augljóst af lestrinum að þar voru engir betri en aðrir.  Allir flokkar, allar þyrpingar stunduðu fyrirgreiðslu.  Að mínu viti er þar um ljótann blett á þjóðinni að ræða.  Alls staðar þar sem fólk vissi að það gat stytt sér leið, þá var það reynt, alveg sama hver hélt um stjórnartaumana.  Enda má öllum vera ljóst að þetta hefur ekkert breyst í tímans rás, svona eru kaupin ennþá á eyrinni!

Fyrir aðeins fimm árum síðan þurfti fólk sem ég þekki að fá leitt til sín rafmagn þar sem það var að reisa sér lögbýli.  Það tók marga mánuði í stjórnkerfinu að svara þeim og að lokum hringdu þau í hverja flokks-skrifstofuna á eftir annari til að ýta á eftir.  Alls staðar áttu sumarbústaðalönd að ganga fyrir.  það var ekki fyrr en þau höfðu samband við þjóðkunnann fyrirgreiðslupólitíkus að þau fengu loksins rafmagn og þá helst vegna tengsla.  Þarna er íslenskri stjórnsýslu ágætlega lýst.

Annað sem mér finnst sláandi er hversu margir stjórnmálaleiðtogar okkar hafa fengið krabbamein, Gunnar, Geir, Davíð, Geir H.H., Ingibjörg Sólrún, … einhverjir fleiri?