Ég er agalega stolt af mér, næstum búin með fyrstu bók ársins, er meira að segja búin að finna næstu bók á eftir. Það er verið að vísa í svo margt úr öðrum bókum í þessari, að ég fann mig knúna til að dýpka skilninginn.
Það er svo merkilegt með janúar ár hvert að mér finnst hann líða líkt og væri tveir mánuðir. Það er svo margt búið að gerast á þessu ári að ég trúi því varla að fyrsti mánuður ársins sé ekki liðinn. Ár umhleypinga er líklegast réttnefni. Kolbrún lenti í sínum þriðja árekstri á lífsleiðinni í þessum mánuði, ýfði náttúrulega upp sár frá því í sumar en sem betur fer virðist hún sleppa nokkuð vel, miðað við allt (ef hægt er að tala um að sleppa vel í árekstri).
Berglind fékk magabólgur út af lyfjum og smá stressi. Komin á járntöflur, vítamín og steinefna- kúra, enda var hún aðeins með helming þess blóðs sem er eðlilegt. Ekki að undra að hún væri orðin hvít í framan og hefði ekkert úthald! Finnst bara ótrúlegt að hugsa til þess að ég var ekki að kveikja á perunni…. svona eftirá koma “ah!” tilvik þegar ég hugsa til baka. Ingólfur er nokkuð góður bara!
Af einhverjum ástæðum sem mér eru algjörlega huldar, er ég farin að skrifa niður texta í bundnu máli! ÉG!!! Aldrei getað sett saman vísubrot á ævinni. En þetta er frekar gaman, má eiginlega líkja þessu við flóð þar sem ég hef ekki hugmynd um hvaðan þetta kemur, það æðir bara fram.