Eins og venjulega er ég óþarflega ódugleg (fullt af ó.um í þessu) að setja inn færslur hérna. Það er einhvern vegin eins og Fésið komi í staðin fyrir þessa ótrúlegu þörf mína (enn eitt ó.ið) til að tjá mig í rituðum texta fyrir alheiminn.
Aldrei þessu vant virðist þó vera að skapast svigrúm fyrir þessa innbyrgðu þröf mína og því um að gera að grípa tækifærið þegar það gefst.
Það er nú til að æra óstöðugan (fjórða) að fara sérstaklega yfir hvað hefur gerst á þessu tæpa ári frá því ég úttalaði mig um þorrablóts törnina, en svona til að stikla á því stóra þá er árið búið að líða á eftirfarandi hátt:
Kórsöngur, tamning, reiðtúrar, sumarbústaður, ferðalag til Akureyrar, helgar-tjaldútilega á suðurlandi, vinna, skemmtun og jól.
Þá er það frá.
Ég fór yfir það hvort ég ætti að strengja einhver áramótaheit, ég hef ákveðið að gera það ekki, það eykur aðeins líkurnar á því að svíkja það sem ég lofa. í staðin ætla ég að sjá hvernig árið gengur og ef það stefnir í óefni (fimmta) þá tek ég rassíu í desember n.k. eða mæti fílelfd á næsta ári með loforðapakka. Ég stefni þó á að eiga gott ár og hlæja meira en á síðasta ári. Svo tók ég upp á því að lesa. Keypti bók upp á rúmar 600 blaðsíður (með index) svona af því að það var örugglega lengsta og þyngsta bókin sem ég gat séð fram á að geta loftað þegar ég ligg undir sænginni.
Hér gætu margir spurt sig hvort ca 300 blaðsíður hefði ekki verið yfirdrifið, og svarið er “Jú” það hefði verið meira en nóg. En þá þekkir þú ekki þessa Lovísu, heldur einhverja aðra.
Ég varð virkilega forvitin og keypti mér ævisögu. Nei, ég er ekki að nálgast áttrætt, sem er sá aldur sem ég sá fyrir mér að ég þyrfti að ná til að hafa afsökun til að kaupa þesslags bókmenntir. Ég varð bara ótrúlega forvitin (sjötta, reyndi að forðast ó.ið áðan, svo ég þarf að nota það hér). Keypti mér ævisögu Gunnars Thoroddssens og hef bara virkilega gaman af. Svo gaman reyndar að um daginn las ég rétt um 100 blaðsíður um kvöldið, og það er met, svona þegar ég tek tillit til þess að það eru fáar myndir í bókinni. Ég hef reyndar komist yfir mun fleiri blaðsíður á sama tíma, en þá erum við að tala um Ástrík eða aðrar göfugar teiknimyndasögur.
Undanfarin ár hef ég keypt bók til að lesa um jólin, yfirleitt kaupi ég spennusögur, Agatha Christie/Hercule eða eitthvað í þeim dúr. Núna fann ég bara ekki neina sem mig langaði í. Mér finnst ekki ólíklegt (úff.. sjöunda) að það sé minna um þesslags bókmenntir í boði núna. Ég var ekki í stuði fyrir Gilz, Jónínu, Björgvin eða fleira í ruslflokki (set þær skör lægra en “Séð og Heyrt”), þeir krimmar sem voru í boði höfðuðu ekki til mín. Mér finnst Arnaldur yfirleitt góður, en það var bara engin bók frá honum sem kallaði á mig, ekki Yrsa eða hvað þau heita öll sem kynda undir skáldagyðjunni. Engin erlendur krimmi heldur, samt var ég nýlega búin að ljúka bók sem heitir “Dead like you” eftir Peter James og gæti vel hugsað mér að lesa meira eftir hann. En sumsé, ævisaga löngu “látins kalls”, eins og sagði í einhverju laginu, var það eina.
Meira siðar