Á einni viku er ég búin að mæta á þrjú þorrablót, hvert öðru ólíkara
Fyrsta blótið var í sveitinni, Þorrablót Holta- og Landmanna að Brúarlundi. Sveita-blót eins og þau eiga að vera, heimatilbúin hljómsveit tveggja Landmanna (já ég veit að hljómsveit er 5 eða fleiri, en þeir voru örugglega ígildi hljómsveitar). Alveg séstök upplifun að skemmta sér innan um sveitunga mína (já ég er víst fædd á mölinni, en samt!).
Næsta blót var svo haldið af Starfsmannafélagi Samskipa, Samstarf, og það var ótrúlega skemmtilegt líka. Hagdeildin sá um skemmtiatriðin og stóð sig með príði, samt gott að þau voru eftir matinn (þeir sem voru viðstaddir átta sig á hvers vegna ), flautuleikurinn var frábær. Það sem gerir það svo skemmtilegt að skemmta sér með starfsmönnum Samskipa, er hvað allir þekkjast vel og það er einstaklega góður mórall, þó fyrirtækið sé stórt þá er mórallinn samt eins og hjá 30 manna fyrirtæki, sem er frábært. Minnir mig soldið á Frumherja þegar ég var þar.
Síðasta blótið var svo Þorrablót Vatnsendabúa, þrátt fyrir að ég sé ekki þaðan þá eru bara svo margir úr kórnum sem búa á Vatnsenda og svo er þetta blót eins líkt sveita-blótum og hugsast getur
það sem gerir þessi blót ólík hvert öðru er ekki maturinn, hann er oftast nær eins, allt þetta hefðbundna á borðunum, síld, rúgbrauð,flatkökur, súrt slátur, súr hvalur, hákarl, hangikjöt, kartöflur í uppstúf, saltkjöt og svona ýmislegt smáræði eftir því hver kokkurinn er. Skemmtiatriðin eru svo yfirleitt heimatilbúin og fer svoldið eftir andanum sem svífur yfir blótinu hverju sinni. Ég hef ofsalega gaman af skemmtiatriðunum í sveitinni, þar eru fluttir annálar þar sem flestir íbúar sveitarinnar fá brandara á sinn kostnað, allt í góðum anda að sjálfsögðu.
Það sem gerir þessi blót ólík hverju öðru er það sem tekur við. Dansleikurinn! Í sveitinni er byrjað á sjómannavölsunum, svo er farið í hringdans (stundum tvisvar, þrisvar á kvöldi) og að lokum eru svo leikin lög þar sem danskunnátta sveitunga fær að blómstra. Í bænum er meira um rokk og ról. Nýjustu slagarar eru látnir fjúka, Bítlarnir eru náttúrurlega klassískir en mikill meirihluti þeirra sem mæta kunna ekki dans (þá á ég við t.d. vals, rúmbu eða annað slíkt). Þeir sem mæta frá fyrirtækjum eru oft að hita sig upp fyrir meira djamm, þannig að ef það á að halda í þann hóp má ekki heyrast mikið af tónlist sem er ekki mainstream. Gömlu dansarnir verða algjör killer og fólk hleypur út í förmum.
Vatnsendablótið er eiginlega bland af þessu tvennu. Þarna mæta “gömlu” íbúarnir í bland við nýrri bylgju, en þó er andinn sá að vera á “sveita”-blóti. Ég skemmti mér alla vega konunglega á þeim öllum og hlakka til blótann 2011.