Fjárstyrkir

Nú er mikið rætt um mútur og þá aðallega í tengslum við Guðlaug Þór.  Það verður fróðlegt að sjá hvernig það mál þróast, en ég ætla ekki að tala mig út um það mál heldur um mína skilgreiningu á styrkjum.

Í mínum huga eru mútur fé sem greitt er til aðila (eins eða fleiri), fé sem aðeins þeim aðila/aðilum stendur til boða og er innt af hendi gegn greiða, hvort sem það felur í sér verknað eða verkleysi.

Til samanburðar má horfa á annað fjárstreymi sem eru styrkir.  Styrkir eru greiddir til aðila sem sækja um styrk.  Hvaða aðili sem er getur sótt um þann styrk, fólk í stjórnmálum, í bönkum, háskólum, rekstraraðilar, nemendur, atvinnulausir, heimavinnandi eða hvar svo sem það er.  Þessir styrkir eru yfirleitt skilgreindir og hafa ákveðin tilgang t.d. fyrir nám, vísindastarf eða hvað annað sem hægt er að styrkja.

Ef fjármagn er í formi styrkja er hægt að sækja um féð, enda ætli einstaklingur/fyrirtæki að nýta það sér eða öðrum til framdráttar og það er algjörlega uppi á borðinu.  Ef stjórnmálamaður sækir um styrk til framboðs, er nokkuð augljóst að öðrum stjórnmálamönnum stendur það einnig til boða, hvar svo sem þeir liggja í flokkum. Ég sé fyrir mér einhverja fasta summu, 100 - 200 þúsund (hvað veit ég?) sem rennur til hvers sem er.  Það er heldur ekki óeðlilegt að aðili sem veitir styrkinn setji kvaðir á þá sem sækja sér styrk, t.d. að standa fyrir eitthvað málefni, vinna að framgangi einhvers?  Ekki að mér finnist það sérstaklega aðlaðandi, þ.e. þegar kemur að stjórnmálamönnum og fjármálafyrirtækjum.

Það vita allir fyrir hvað rannsóknarstyrkir standa, þetta form er meira aðlaðandi, eins námsstyrkir sem mér finnst persónulega að séu ekki nógu margir. Mín persónulega skoðun á fjárútlátum til stjórnmálamanna á sér tvær hliðar, annars vegar er eðlilegt að einstaklingur geti sótt sér styrki til að komast að með sín málefni, t.d. með auglýsingum í blöðum, hins vegar, í ljósi síðustu atburða, getur myndast óeðlilegt samband milli þessara aðila.

Það sem mér finnst óeðlilegt er þegar örfáum einstaklingum stendur þetta til boða, þegar þeir fá greiðslu sem er það há að hún hefur áhrif á lifsviðurværi og þar með myndast hagsmunatengsl milli þess sem veitir féð og þess sem þiggur það.  Þarna er hægt að tala um mútufé, en þá er ég ekki að segja að þiggjandinn geri það meðvitað eða með þeim ásetningi að gjalda greiðann með óeðlilegum hætti, hættan er hins vegar fyrir hendi.

Hér á Íslandi er áralöng hefð fyrir frændsemi, þ.e. sá sem er vel tengdur vegna skyldleika eða vináttu er líklegri en aðrir til að hljóta stöður.  Við höfum oftast litið pent framhjá þessu, enda baráttan oft verið ansi hörð. Hver kannast ekki við að vera sendur til einhvers aðila vegna tengsla, t.d. til að fá vinnu, “ah… hann Siggi frændi þinn er að vinna þarna og hann skuldar mér nú greiða!”.  Unglingar komast að í fyrirtækjum vegna tengsla foreldra eða annarra ættingja og vina, við nýtum okkur tengsl alla daga og finnst það ekki tiltökumál.  Kannski erum við svo vön þessu að okkur finnst ekki tiltökumál að peningar komi inn í spilið.

Ég er ekki að mæla með því að gildi frændsemi og vináttu verði slitinn, við þurfum öll á tengslum að halda, en spurningin er hvenær er þetta eðlilegt og hvenær er hægt að tala um óeðlileg tengsl. Kannski liggur munurinn í hugarfari þess sem veitir greiðann eða styrkinn og þess sem þiggur, en hvernig geta aðrir þá séð muninn?  Er eitthvað sem segir okkur hvort um sé að ræða eðlileg eða óeðlileg tengs?

Jú við getum gengið út frá því að þegar báðir aðilar eru tilbúnir til að birta upplýsingar um gjörninginn að þá sé um eðlilegt ferli að ræða, sá sem er ekki tilbúin til að veita upplýsingar um tengslin, hann hefur eitthvað að fela og gerir sér grein fyrir því að verkin eru ekki hafin yfir grun.  þegar stjórnmálamaður eða annar einstaklingur sem vinnur í þágu almennings vill ekki eða telur sig ekki mega eða geta upplýst um styrki, þá á hann ekki að þiggja þá í upphafi.

Umstang og öfugsnúin frí

“Á svona tímamótum er gott að líta um öxl (búin að því)”… snilldar skets úr einhverjum gamanþættinum :)   man ekki hvaða.  En þetta er samt pínulítið staðan sem ég er í núna.  Þessir páskar voru einstaklega ljúfir, ég held ég hafi ekki náð svona góðri hvíld síðan ja!  hm… já síðan hvenær? Oftast er staðan sú að eftir góða hvíld tekur við tiltekt, sópa og skúra og koma öllu draslinu aftur i bílinn og keyra heim.  Nema núna er ég heima! Engin brjálæðisleg tiltekt, það þarf ekki að teppa þvottavélina næstu vikuna við að þrífa fötin eftir ferðalagið eða eitthvað í þeim dúr.  Mesta umstangið er að koma öllu í uppþvottavélina og raða upp í skáp.  Pís of keik!

Þetta er ánægjuleg tilbreyting frá öðrum fríum, hversu góð sem þau voru þá var alltaf svo yndislegt að koma heim og slappa af eftir fríið!  Hversu öfugsnúið er það?  Ég er eiginlega komin á þá skoðun að eina almennilega fríið sé að slaka á heima!  Tilbreytingin fells svo í því að skreppa í dagsstund eitthvað út fyrir bæjarmörkin.   Ekki það að það sé ekki gaman að fara í ferðalag, en mín upplifun af þeim er yfirleitt stress, ótrúlegir skipulagshæfileikar (smá skortur þar) og ótakmarkað fé (þarna koma skipulagshæfileikar að góðum notum).  Ég hef ekki farið í frí öðruvísi en velta fyrir mér hvar ég eigi að gista fyirr hverja nótt (nema í sumarbústað), hvort ég sé með nógu mikinn mat eða jafnvel of mikið af mat, hvort ég sé með pening fyrir bensíni og hvort ég hafi þá efni á því að kaupa mat eða jafnvel nóg fyrir gistingu.  Of mikið stress!!!

Best væri kannski að hafa afdrep í sumarbústað, en þar sem ég á engan slíkann þá er þetta spurning um að redda sér gistingu í félagsbústað eða setjast upp á ættingja (takk pabbi og Jóna! :) ). Bestu frí sem ég hef farið í hingað til, eru farin út fyrir landsteinanna, af tveimur ástæðum þá helst.  Í fyrsta lagi er yndislegt að fara í annað umhverfi, það er eiginlega bráðnauðsynlegt, bæði tilbreytinginn og svo hafa allir gott af því að sjá að heimurinn er stærri en höfuðborgarsvæðið og Akureyri.  Í öðru lagi er það hæfileg fjarlægð frá vinnu, þar sem ég get þá sett mér þær skorður að vera ekki að tékka á einhverju sem er alveg bráðnauðsynlegt að tékka á!  Hrikalegur ósiður sem ég hef komið mér upp.

Það sem mér hefur alltaf fundist skemmtilegast við að kíkja út fyrir landsteinanna er áhrifin sem þetta hefur á krakkana mína.  Það er ótrúlegt hvað þau taka stórt þroska-skref eftir svona ferðir.  Allt í einu er heimurinn svo miklu, miklu stærri og það er til fólk sem er ekki eins og við, en samt ekkert öðruvísi!  Þau upplifa heiminn sem betri heild.  Vonandi verða þau mun opnari fyrir öðrum hlutum en ég var á þeirra aldri.

En það var sumsé ljúft að njóta þess að vera í páskafríi og ég hlakka til sumarsins, þó það leiki hálfgerðir haustvindar um okkur núna.

Myndir

Ég er í endurhæfingu þessa dagana, er að teikna upp í skissubók ýmislegt sem ber fyrir augun.  Í kvöld var ég til dæmis að teikna upp fólk úr sjónvarpinu, fréttaþulu, handboltakappa og ýmsa aðra sem ég fann þörf fyrir að smella á blað.  Þetta er búið að ganga ágætlega, komin með nokkrar skissur sem ég get þá vonandi unnið lengra með tíð og tíma.

Það sem er kannski óvenjulegt við þetta allt saman er að ég hef sjaldan, eða aldrei, talið mig góða í að teikna fólk, eiginlega forðast það eins og heitan eldinn.  Það er því soldið gaman að sjá að fólk er ótrúlega einfalt þegar maður nær tökum á hlutföllum.

Annars er ég ekki mikið að flíka þessum myndum mínum, það kemur kannski að því að ég skelli þeim fram, og verð líklegast óþolandi ættinginn sem gefur bara myndir í afmælisgjafir í framtíðinni :-þ

Mitt vandamál hefur iðulega tengst ímyndunaraflinu, ég er búin að sjá út einhverja mynd og svo þegar mér tekst ekki að koma henni á blað, eins og ég sá það í upphafi, hendi ég því frá mér og fussa yfir því að mér skildi hafa dottið í hug að ég gæti teiknað þetta!…  Alltaf að keppa við Kjarval.  Það er líklegast ágætis aðferð að byrja á því að viðurkenna að fyrst þurfi að læra smáa hluti, t.d. andlit, hendur, fætur, hreifingar og þess háttar, áður en ég færi mig út í stóru verkin.  Annars hef ég alltaf haft ánægju af því að teikna landslag, það er kannski af því að landslag fyrirgefur þótt þúfa, ás, vatn, lækur eða fjall, sé ekki í sömu hlutföllum á mynd, það er verra ef nef, auga eða fótur skagar út úr teikningunni og manneskjan virðist útvaxin á ótrúlegustu stöðum.  Þannig sé ég það alla vega.

Svo gæti einnig verið komin tími til að viðurkenna það fyrir sjálfum sér að það sem mér finnst vera ófullkomið og asnalegt, er það kannski ekki.  Hrós sem ég fékk sem krakki fóru beint í ruslið af því að ég trúði því ekki sjálf að myndirnar væru raunverulega góðar, yfirleitt gat ég sjálf rakkað það allt niður og þar með skipti engu máli hvað aðrir sögðu.  Myndir hafa oft og iðulega verið kyrfilega læstar ofan í skúffu þar sem aðeins ég get nálgast þær, ég stefni á að breyta því.

Hver er ég?

Var að klára fyrstu yfirferð á bókinni “Hver er ég?” eftir Gunnlaug Guðmundsson og samkvæmt henni er ég:

  • Sól í Vatnsbera (Grunneðli, vilji og lífsorka)
  • Tungl í Ljóni (Tilfinningar, heimili og vanhegðun)
  • Merkúr í Fiskum (Hugsun og máltjáning)
  • Venus í Vatnsbera (Ást og samskipti)
  • Mars í Steingeit (Framkvæmd og sjálfsbjörg)

Ef ég tek þetta saman er ég ákveðin, listræn og tilfinningarík, kannski hægt að yfirfæra það á hvern sem er, en það var ótrúlega margt í textanum sem ég gat tengt við.

Ég fékk þessa bók í jólagjöf og það tók smá tíma að setjast niður til að lesa hana, því að þótt ég hafi nánast óþrjótandi áhuga á stjörnuspeki, stjörnufræði og öllu því sem tengist þeim málefnum, þá læt ég mér oftast nægja að tékka á merkinu mínu.  Þetta er því í fyrsta skiptið sem ég sekk mér svona djúpt í þessi málefni.

Ábyrgðir

Í fréttum í kvöld (sjö fréttir þann 21.febrúar 2011 nánar tiltekið) var ein frétt umfram aðrar sem fékk mig aðeins til að hugsa um ábyrgðir.  Skipstjóri á skipi Eimskipafélagsins, sem er sumsé strandað í Oslóarfirði, hefur, samkvæmt því sem hefur komið fram í fréttum, viðurkennt að hann hafi gert mistök við útsiglinguna.  Það sem stakk mig var ekki það að hann skildi hafa gert mistök, og enn síður að hann hafi viðurkennt það, heldur hitt að það sé gagnrýnt að það hafi komið fram.  Ég hélt að það væri deginum ljósara að mannleg mistök hafi valdið þessu óhappi og umhverfis slysi, þó að vissulega sé freistandi að kenna t.d. tölvum, siglingatækjum eða öðrum ópersónulegum hlutum um.

Fyrir mér var þetta yndisleg tilbreyting, þ.e. að einstaklingur komi fram og viðurkenni blákallt mistök.  það er eitthvað svo yndislega framandi við það.  Það virðist reyndar vera komið í tísku á öðrum vettvangi, t.d. á Alþingi, þar sem þingmenn eru allt í einu tilbúnir til að viðurkenna mistök og fái hvítþvott í staðinn.  En þetta var ekki svoleiðis.  Þetta hljómaði svoldið eins og það væri viðurkennt af einlægni, ekki af eiginhagsmunum.

Þessi hugsun snýr líka að sjálfri mér, er ég tilbúin til að taka ábyrgð á því sem ég geri?  Mínum mistökum?  Það er víst til lítils að gagnrýna aðra fyrir það sem ég geri sjálf, ekki nema það sé þá gert í þeim tilgangi að læra af því sjálf :-)

En hvað er þá ábyrgð og hvenær ber ég ábyrgð?  Ég ber náttúrulega ábyrgð á því sem ég skrifa hérna, hvernig ég bregst við eða bregst ekki við.  Hvað ég segi, segi ekki, geri eða geri ekki.  Í grunninn allt sem snýr að mér.

Kaldir vindar

Janúar loksins liðinn og febrúar langt komin líka.  Ég var að átta mig á því hvers vegna mér finnst janúar alltaf svona óóskaplega lengi að líða.  Ég er náttúrulega að bíða eftir afmælinu :-)

Í byrjun hvers vetrar hef ég beðið spennt eftir snjónum, hlakkað til að hafa möguleikann á því að fara á skíði, gönguferðir í snjónum og taka vetrarmyndir.  Í byrjun hvers árs er ég svo farin að hlakka til vorsins, finna ilminn af gróðrinum, finna hitann í loftinu og heyra í fuglunum þegar ég vakna.  Nú er febrúar hálfnaður, páskarnir framundan og ég get varla beðið eftir ganga úti í vorinu.  Það sem heldur mér inni þessa dagana eru þessir köldu vindar sem blása seinni partinn.  Morgnarnir eru mildir og bjóðandi en kvöldin köld og hryssingsleg, vatnið sem rann um göturnar eftir að hafa þiðnað frá klaka gærdagsins eftir að sólin bræddi klakann fyrr um daginn.  Fuglarnir hljóðna búttaðir og saddir og bíða eftir hita næsta dags.

Tilveran er full af allskonar mótsögnum og hver árstími bíður upp á mismunandi tómstundir og mismunandi óskir.  Á sumrin er tími ferðalaga, útilegu og langra gönguferða, þá hlakkar maður til haustsins, kyrrðarinnar og kertaljósanna.  Haustin eru svo tími berjanna, uppskerunnar og vetrarundirbúnings, þá hlakkar maður til snjóarins, jólanna og átsins.  Veturinn gengur í garð með kulda, heita kakóinu og skíðanna (stundum) og maður bíður eftir því að sólin fari að hækka á lofti.  Vorið tekur við með hestaferðum, páskunum, skólafríum og sáningu, og þá hlakkar maður til sumarsins, gönguferða og ferðalaga.  Yndislega öfugsnúið allt saman.

En svo er hollt að hlakka til einhvers, það gefur lífinu tilgang, svo af hverju ekki að hlakka til þess sem næsta tímabil bíður uppá?

En núna er tími köldu vindanna, njótum þess á meðan það gefst :-)

Útilokun

Kláraði sögu dr. Gunnars Th. í dag.  Þetta var ákaflega fróðlegur lestur og upplýsandi í alla staði. Það sem situr í mér eftir lesturinn er fyrst og fremst útilokunin sem hann varð fyrir, fyrst og síðast vegna þess að hann fylgdi sinni sannfæringu.  Lesturinn vakti hjá mér þörf til að vita meira, lesa meira um hvað var í gangi á þessum tíma þegar afi og amma tóku við keflinu og byggðu upp landið eftir áratuga, ef ekki árhundruða fátækt almennings.  Hversu stórbrotinn þessi vegur var, að rísa úr moldinni og til nútímans, á aðeins 50 til 60 árum.

Bakgrunnur Gunnars er vel upp byggður, frá fyrstu blaðsíðu varð ég svo forvitin að ég gat ekki annað en haldið áfram, þótt mér finnist rúmar 500 blaðsíður ansi yfirþyrmandi.  Eins lifði ég mig inn í atburði sem mótuðu hann, svo mikið að oft fannst mér eins og ég hlyti að hafa verið áhorfandi sjálf.  Mótunarárin voru eins mikilvægur hluti af sögunni, án þess hefði ég ekki getað sett mig inn í þá atburði sem fylgdu, að fá tilfinningu fyrir manninum í upphafi útskýrir allt sem kemur á eftir.

Eftir lesturinn er ég hugsandi.  Hvernig er hægt að útiloka eins merkilegan mann og Gunnar frá innsta hring flokksins, maðurinn sem átti þátt í að byggja hann upp úr rústunum.  Ótrúlegt hvað valdabaráttan gat eyðilagt marga einstaklinga, sem í sjálfu sér voru ekki slæmir menn.  Barátta um völd er eins og æxli í flokknum, plottið, útsjónasemin og heiðurinn.  Í gegnum allan lesturinn hafði ég aldrei nema samúð með Gunnari.

Mér fannst lítið til þess koma, sem var mest dregið fram úr bókinni af öðrum, hvernig fyrirgreiðslan gekk fyrir sig.  Ekki að ég sé að mæla henni bót, en það er augljóst af lestrinum að þar voru engir betri en aðrir.  Allir flokkar, allar þyrpingar stunduðu fyrirgreiðslu.  Að mínu viti er þar um ljótann blett á þjóðinni að ræða.  Alls staðar þar sem fólk vissi að það gat stytt sér leið, þá var það reynt, alveg sama hver hélt um stjórnartaumana.  Enda má öllum vera ljóst að þetta hefur ekkert breyst í tímans rás, svona eru kaupin ennþá á eyrinni!

Fyrir aðeins fimm árum síðan þurfti fólk sem ég þekki að fá leitt til sín rafmagn þar sem það var að reisa sér lögbýli.  Það tók marga mánuði í stjórnkerfinu að svara þeim og að lokum hringdu þau í hverja flokks-skrifstofuna á eftir annari til að ýta á eftir.  Alls staðar áttu sumarbústaðalönd að ganga fyrir.  það var ekki fyrr en þau höfðu samband við þjóðkunnann fyrirgreiðslupólitíkus að þau fengu loksins rafmagn og þá helst vegna tengsla.  Þarna er íslenskri stjórnsýslu ágætlega lýst.

Annað sem mér finnst sláandi er hversu margir stjórnmálaleiðtogar okkar hafa fengið krabbamein, Gunnar, Geir, Davíð, Geir H.H., Ingibjörg Sólrún, … einhverjir fleiri?

Flóð

Ég er agalega stolt af mér, næstum búin með fyrstu bók ársins, er meira að segja búin að finna næstu bók á eftir.   Það er verið að vísa í svo margt úr öðrum bókum í þessari, að ég fann mig knúna til að dýpka skilninginn.

Það er svo merkilegt með janúar ár hvert að mér finnst hann líða líkt og væri tveir mánuðir.  Það er svo margt búið að gerast á þessu ári að ég trúi því varla að fyrsti mánuður ársins sé ekki liðinn.  Ár umhleypinga er líklegast réttnefni. Kolbrún lenti í sínum þriðja árekstri á lífsleiðinni í þessum mánuði, ýfði náttúrulega upp sár frá því í sumar en sem betur fer virðist hún sleppa nokkuð vel, miðað við allt (ef hægt er að tala um að sleppa vel í árekstri).

Berglind fékk magabólgur út af lyfjum og smá stressi.  Komin á járntöflur, vítamín og steinefna- kúra, enda var hún aðeins með helming þess blóðs sem er eðlilegt.  Ekki að undra að hún væri orðin hvít í framan og hefði ekkert úthald!  Finnst bara ótrúlegt að hugsa til þess að ég var ekki að kveikja á perunni…. svona eftirá koma “ah!” tilvik þegar ég hugsa til baka.  Ingólfur er nokkuð góður bara!

Af einhverjum ástæðum sem mér eru algjörlega huldar, er ég farin að skrifa niður texta í bundnu máli!  ÉG!!!  Aldrei getað sett saman vísubrot á ævinni.  En þetta er frekar gaman, má eiginlega líkja þessu við flóð þar sem ég hef ekki hugmynd um hvaðan þetta kemur, það æðir bara fram.

Erfiðar ákvarðanir

Í dag tók ég ákvörðun sem er líklegast sú erfiðasta sem ég hef nokkurntímann tekið. Ég fyllist ótrúlegum létti en það er samt svo óendanlega sorglegt í leiðinni.  En það er svo sem ekkert við því að gera, stundum er nauðsynlegt að standa við ákvarðanir sem eru þungbærar.

Það er möguleiki að ég verði ekki mjög perky næstu daga!

Áramótaheit - eða þú veist, næstum!

Eins og venjulega er ég óþarflega ódugleg (fullt af ó.um í þessu) að setja inn færslur hérna.  Það er einhvern vegin eins og Fésið komi í staðin fyrir þessa ótrúlegu þörf mína (enn eitt ó.ið) til að tjá mig í rituðum texta fyrir alheiminn.

Aldrei þessu vant virðist þó vera að skapast svigrúm fyrir þessa innbyrgðu þröf mína og því um að gera að grípa tækifærið þegar það gefst.

Það er nú til að æra óstöðugan (fjórða) að fara sérstaklega yfir hvað hefur gerst á þessu tæpa ári frá því ég úttalaði mig um þorrablóts törnina, en svona til að stikla á því stóra þá er árið búið að líða á eftirfarandi hátt:

Kórsöngur, tamning, reiðtúrar, sumarbústaður, ferðalag til Akureyrar, helgar-tjaldútilega á suðurlandi, vinna, skemmtun og jól.

Þá er það frá.

Ég fór yfir það hvort ég ætti að strengja einhver áramótaheit, ég hef ákveðið að gera það ekki, það eykur aðeins líkurnar á því að svíkja það sem ég lofa.  í staðin ætla ég að sjá hvernig árið gengur og ef það stefnir í óefni (fimmta) þá tek ég rassíu í desember n.k. eða mæti fílelfd á næsta ári með loforðapakka. Ég stefni þó á að eiga gott ár og hlæja meira en á síðasta ári.  Svo tók ég upp á því að lesa.  Keypti bók upp á rúmar 600 blaðsíður (með index) svona af því að það var örugglega lengsta og þyngsta bókin sem ég gat séð fram á að geta loftað þegar ég ligg undir sænginni.

Hér gætu margir spurt sig hvort ca 300 blaðsíður hefði ekki verið yfirdrifið, og svarið er “Jú” það hefði verið meira en nóg.  En þá þekkir þú ekki þessa Lovísu, heldur einhverja aðra.

Ég varð virkilega forvitin og keypti mér ævisögu.  Nei, ég er ekki að nálgast áttrætt, sem er sá aldur sem ég sá fyrir mér að ég þyrfti að ná til að hafa afsökun til að kaupa þesslags bókmenntir. Ég varð bara ótrúlega forvitin (sjötta, reyndi að forðast ó.ið áðan, svo ég þarf að nota það hér).  Keypti mér ævisögu Gunnars Thoroddssens og hef bara virkilega gaman af.  Svo gaman reyndar að um daginn las ég rétt um 100 blaðsíður um kvöldið, og það er met, svona þegar ég tek tillit til þess að það eru fáar myndir í bókinni.  Ég hef reyndar komist yfir mun fleiri blaðsíður á sama tíma, en þá erum við að tala um Ástrík eða aðrar göfugar teiknimyndasögur.

Undanfarin ár hef ég keypt bók til að lesa um jólin, yfirleitt kaupi ég spennusögur, Agatha Christie/Hercule eða eitthvað í þeim dúr.  Núna fann ég bara ekki neina sem mig langaði í. Mér finnst ekki ólíklegt (úff.. sjöunda) að það sé minna um þesslags bókmenntir í boði núna.  Ég var ekki í stuði fyrir Gilz, Jónínu, Björgvin eða fleira í ruslflokki (set þær skör lægra en “Séð og Heyrt”), þeir krimmar sem voru í boði höfðuðu ekki til mín. Mér finnst Arnaldur yfirleitt góður, en það var bara engin bók frá honum sem kallaði á mig, ekki Yrsa eða hvað þau heita öll sem kynda undir skáldagyðjunni.  Engin erlendur krimmi heldur, samt var ég nýlega búin að ljúka bók sem heitir “Dead like you” eftir Peter James og gæti vel hugsað mér að lesa meira eftir hann.  En sumsé, ævisaga löngu “látins kalls”, eins og sagði í einhverju laginu, var það eina.

Meira siðar :)